Innlent

Glötuðu sjúkraskrám heilsugæslu á Dalvík

Dalvík. Tölvubúnaður var ekki rétt upp settur á Heilsugæslustöðinni á Dalvík og því glötuðust sjúkraskrár fyrir tíu mánaða tímabil.
Dalvík. Tölvubúnaður var ekki rétt upp settur á Heilsugæslustöðinni á Dalvík og því glötuðust sjúkraskrár fyrir tíu mánaða tímabil.

Nú er ljóst að allar sjúkraskrár á Heilsugæslunni á Dalvík á tímabilinu júní 2003 til apríl 2004 eru glataðar vegna galla í tölvubúnaði.„Tapið var gífurlegt og olli mikilli aukavinnu lækna og læknaritara. Auk þess er ávallt hætta á því að gagnatap af þessu tagi stofni öryggi sjúklinga í hættu,“ segir í bréfi sem Heilsugæslan á Dalvík sendi Landlæknisembættinu og síðar Persónuvernd vegna málsins. Persónuvernd hafði fengið kvörtun frá sjúklingi sem taldi sig hafa orðið fyrir tjóni vegna þess að sjúkraskrár hans frá þessum tíma fundust ekki og því ekki hægt að færa fram fullnægjandi sönnun um tiltekin atvik sem tengdust sjúkrasögu hans.

Samkvæmt skýringum Heilsugæslunnar á Dalvík var tölvukerfi stofnunarinnar uppfært árið 2003 með þjónustusamningi við fyrirtækið Anza og síðar Skrín ehf. Setja hafi átt upp netþjón með fjórum hörðum diskum sem ynnu í tveimur pörum þar sem allar upplýsingar yrðu skráðar í bæði pörin. Í mars 2006 hafi komi upp bilun í búnaðinum. Í ljós hafi komið að hann hafi ekki verið settur rétt upp og segulbandsspólur væru auðar.

„Samkvæmt ráðleggingum frá Theriak (sem selur og þjónustar sjúkraskrárkerfið) voru hörðu diskarnir sendir til Bretlands í von um að nálgast mætti gögn af þeim. Þetta tókst ekki og þá voru þeir sendir áfram í nánari greiningu í Póllandi. Þar tókst ekki heldur að endurvekja gögnin. Á þessum tímapunkti var ljóst að tapast höfðu öll gögn úr sjúkraskrárkerfi heilsugæslustöðvarinnar frá því í júní 2003 og þar til í apríl 2004 og engin leið að endurvekja þau,“ segir í útskýringum heilsugæslunnar.

Eftir þetta var netþjónninn settur upp eins og hann átti að vera og afritun breytt þannig að hún sé um símalínu til höfuðstöðva Skrín á Akureyri.

Persónuvernd segir ljóst að Heilsugæslustöðinni hafi borið að taka öryggisafrit af sjúkraskrám og varðveita á öruggum stað. Það hafi ekki verið gert. „Þá telur Persónuvernd að heilsugæslustöðinni hafi einnig borið að athuga það reglulega hvort öryggisafrit hefðu að geyma nauðsynlegar upplýsingar. Telur Persónuvernd að slíkt verði að athuga nægilega oft til að tryggja að öryggisafrit, sem hefur að geyma slíkar upplýsingar, sé ávallt á vísum stað,“ segir stofnunin sem nú hyggst kanna hvort öryggisafritun sjúkraskránna sé orðin fullnægjandi.

gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×