Innlent

Raddir fólksins þagna ekki

Hörður Torfason hefur verið í forsvari fyrir Raddir fólksins.
Hörður Torfason hefur verið í forsvari fyrir Raddir fólksins. MYND/Heiða

Raddir fólksins, sem staðið hafa fyrir mótmælum undanfarna laugardaga á Austurvelli láta ekki deigan síga þrátt fyrir að forystumenn ríkisstjórnarinnar hafi boðað kosningar í vor. Sextándi mótmælafundur Radda fólksins verður haldinn á Austurvelli laugardaginn 24. janúar næstkomandi og hefst hann klukkan þrjú.

Í tilkynningu frá samtökunum segir að þau harmi alvarleg veikindi Geirs H. Haarde forsætisráðherra og óski honum velfarnaðar og góðs bata. „Við fögnum velheppnaðri aðgerð á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra og bjóðum hana velkomna heim." Þá segir að ljóst sé að stuðningsmenn friðsamlegra mótmæla hafa unnið þrekvirki.

„Þúsundir mótmælenda hafa mótmælt vanhæfri ríkisstjórn látlaust síðustu daga og viðbrögð grasrótarinnar í Samfylkingunni bera þess ótvíræð merki að síðustu dagar þessarar valdstjórnar eru að renna upp. Þrátt fyrir áfangasigur með yfirlýsingu um kosningar 9. maí nk. má ekki slaka á. Þjóðin getur ekki búið við vanhæfa ríkisstjórn deginum lengur. Sömu stjórnirnar sitja sem fastast í Seðlabanka og Fjármálaeftirliti og útrásarvíkingarnir leika lausum hala. Sameinumst um að reka endahnút á siðleysi og spillingu - hefjum vorhreingerningar í íslenska stjórnkerfinu."

Ávörp og ræður:

· Magnús Björn Ólafsson, blaðamaður

· Hildur Helga Sigurðardóttir, blaðamaður

· Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, stjórnsýslufræðingur

· Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur

Fundarstjóri er Hörður Torfason








Fleiri fréttir

Sjá meira


×