Lífið

IDOL Siggi fær annan sjéns

Sigurður M. Þorbergsson.
Sigurður M. Þorbergsson.

Sigurði M. Þorbergsyni var boðið að taka tólfta sætið í Idol-stjörnuleit Stöðvar 2 í gærkvöldi. Hann ákvað eftir smá umhugsunarfrest að taka því og verður því meðal keppenda í Smáralindinni þann 20.mars. Sigurður fór í gegnum mikla rússíbanareið á föstudagskvöldinu þegar honum var hafnað í þrígang. Sjónvarpsstjóri Stöðvar 2 segir þetta hafa verið bestu lausnina á mannlegum mistökum. 

 

Sigurður var á báðum áttum um hvort hann ætti að þiggja sætið í samtali við Fréttablaðið. En um leið og sú ákvörðun hafði verið tekin var hann sjálfkrafa kominn í fjölmiðlabann, rétt eins og hinir keppendurnir tólf.

 

 

Óhætt er að segja að síðasti þáttur Idolsins hafi vakið mikla athygli. Að þessu sinni kepptu tíu strákar um fimm laus sæti í úrslitum Idolsins en fimm stúlkur voru komnar áfram. Og þegar kom að því að tilkynna úrslitin úr símakosningunni varð annar kynnir kvöldsins, Sigmar Vilhjálmsson, sambandslaus við upptökuverið. Fyrir mistök tilkynnti hann að Sigurður hefði verið kosinn áfram af áhorfendum heima í stofu. Þetta var leiðrétt í snatri af samstarfsfélaga Sigmars, Jóhannesi Ásbjörnssyni, og söngvarinn efnilegi varð að bíta í það súra epli að setjast aftur í sófann. Kvöldið var hins vegar ungt, því miður fyrir Sigurð. Því dómnefndin átti enn eftir að velja fimmta og síðasta keppandann. Þau Björn Jörundur, Jón Ólafs og Selma Björnsdóttir horfðu framhjá Sigurði og völdu Stefán Friðrik í hans stað. Gamanið var heldur betur tekið að kárna og átti eftir að versna til muna þegar Sigurður var kallaður upp á svið á nýjan leik. Í þetta sinnið kom hann til greina sem Wildcard-keppandi og stóð valið milli hans og Alexöndru Elfu Björnsdóttur. Viti menn, Alexandra var valin en Sigurður sat eftir með sárt ennið.

Pálmi Guðmundsson, sjónvarpsstjóri Stöðvar 2, segir þetta hafa verið ótrúlega leiðinlegt. Eftir þáttinn hafi allir aðstandendur þáttarins lagst undir feld og velt því fyrir sér hvernig væri hægt að bæta fyrir þessi mistök. "Þetta var lausnin sem við komumst að og ég held að hún sé sú besta í stöðunni. Nú er Sigurður upp á náð þjóðarinnar kominn og situr við sama borð og allir hinir." -fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.