Innlent

Framlög til háskóla hærri 2010 en 2008

háskóli íslands Langstærstur hluti fjárveitinga til háskóla fer til Háskóla Íslands, 9 milljarðar af 14,5 milljörðum í ár. Útgjöld til háskólanna voru árið 2000 4,3 milljarðar og hafa því meira en þrefaldast á níu árum.fréttablaðið/stefán
háskóli íslands Langstærstur hluti fjárveitinga til háskóla fer til Háskóla Íslands, 9 milljarðar af 14,5 milljörðum í ár. Útgjöld til háskólanna voru árið 2000 4,3 milljarðar og hafa því meira en þrefaldast á níu árum.fréttablaðið/stefán

Framlög til háskóla hafa meira en þrefaldast á síðustu níu árum. Árið 2000 námu framlög ríkisins til allra skólanna 4,3 milljörðum króna. Á fjárlögum 2009 nemur sú upphæð 14,5 milljörðum. Framlög til skólanna á næsta ári verða hins vegar skert um 8,5 prósent á næsta ári.

Eftir niðurskurðinn verða framlögin engu að síður hærri en árið 2008, en þá námu þau 12,9 milljörðum króna. Miðað við 8,5 prósenta niðurskurð á næsta ári verður framlagið 2010 13,3 milljarðar króna.

Framlögin hafa aukist jafnt og þétt síðustu ár en mest var aukningin árið 2008. Þá fóru þau úr 10,5 milljörðum árið áður í 12,9 milljarða.

Langstærsti hluti framlaga fara til Háskóla Íslands, eða 9 milljarðar. Það er mikil aukning frá árinu 2000, en þá nam framlagið 2,7 milljörðum króna. Til Háskólans í Reykjavík fara í ár 2,2 milljarðar og 1,4 til Háskólans á Akureyri. Sá síðastnefndi fékk árið 2000 399 milljónir króna. Háskólinn í Reykjavík var þá rekinn undir nafninu Viðskiptaháskólinn í Reykjavík og fékk úthlutað 212 milljónum. Tækniskólinn, sem nú tilheyrir Háskólanum í Reykjavík, fékk árið 2000 263 milljónir króna.

Rétt er að geta þess að eftir á að taka tillit til verðlagsuppbóta í þeim tölum sem birtar eru fyrir árið 2009, en fjármálaráðuneytið uppfærir reikningana í ágúst.

Á fjárlögum 2009 fara 668 milljónir til Listaháskóla Íslands, 522 til Landbúnaðarháskóla Íslands, 348 til Háskólans á Bifröst og 260 til Hólaskóla - Háskólans á Hólum.

Menntamálaráðuneytinu er gert að skera niður um 3,7 milljarða á næsta ári. Auk 8,5 prósenta niðurskurðar í háskólum verður skorið niður um 5 prósent í framhaldsskólum og um 1 milljarð til menningarmála.

Katrín Jakobsdóttir menntamála­ráðherra segir að í niðurskurðartillögum verði reynt að standa vörð um kjarnastarfsemina.

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×