Íslenski boltinn

Auðun: Skil við Fram í góðri sátt

Eiríkur Stefán Ásgerisson skrifar
Auðun Helgason og Þorsteinn Gunnarsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur.
Auðun Helgason og Þorsteinn Gunnarsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur. Mynd/Heimasíða Grindavíkur

Auðun Helgason skrifaði í dag undir tveggja ára samning við Grindavík en hann hefur verið í herbúðum Framara undanfarin tvö ár.

Það kom mörgum á óvart að Auðun skyldi hafa gengið til liðs við Grindavíkur enda hafði hann lýst því yfir að hann vildi vera áfram hjá Fram.

„Það var fyrsti kostur að vera áfram í Fram en við náðum ekki saman. Þá kom Grindavík til sögunnar," sagði Auðun. „Við höfum rætt saman undanfarna daga en það fór allt á fullt hjá okkur í gær."

Hann segist vera sáttur við sinn tíma hjá Fram. „Við áttum frábært sumar í fyrra þegar við náðum þriðja sætinu. Þá rættust allir draumar hjá okkur og við fórum langleiðina með að endurtaka leikinn í sumar. Það var hins vegar afar sárt að tapa bikarúrslitaleiknum og það gerir knattspyrnudeild Fram mjög erfitt fyrir. Enda skiptir þátttaka í Evrópukeppni miklu máli fyrir rekstur deildarinnar."

„En ég skil við Fram í góðri sátt enda hef ég gefið allt mitt til félagsins á undanförnum tveimur árum. Ég og Þorvaldur [Örlygsson, þjálfari Fram] áttum gott spjall saman og það endaði allt á góðan hátt. Ég þakkaði honum kærlega fyrir ómetanlegt samstarf á undanförnum tveimur árum enda er þar á ferðinni einn allra besti þjálfari deildarinnar."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×