Innlent

Þriðja flensutilfellið: Eiginkonan smitaðist líka

Þriðja tilfelli inflúensu A (H1N1) greindist á Íslandi í gærkvöld. Þar er um að ræða eiginkonu karlmannsins sem greindist með veikina í fyrradag og sagt var frá í tilkynningu sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar í gærmorgun. Fullvíst er talið að hjónin hafi smitast í Bandaríkjunum. Þaðan komu þau til Íslands fyrir réttri viku, miðvikudaginn 3. júní. Þau veiktust bæði en ekki alvarlega.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá sóttvarnalækni og almannavarnadeildar. Þá segir að sameiginlegt sé með öllum þremur inflúensutilfellunum, sem greinst hafa hérlendis, að viðkomandi komu hingað frá Bandaríkjunum.

Enn sem komið er hefur ekki greinst smit milli manna á Íslandi.

Búast má við að inflúensan breiðist út hér á landi á næstu vikum og mánuðum en þar sem sýkingin er ekki alvarlegri en hefðbundin árleg inflúensa er viðbúnaður hérlendis óbreyttur.

Mikilvægt er að fylgjast vel með útbreiðslu inflúensunnar hér á landi því öll vitneskja um sjúkdóminn er nauðsynleg þegar metið er til hvaða viðbragða skuli grípa í framtíðinni. Læknar eru því áfram hvattir til að senda sýni til greiningar frá sjúklingum sem taldir eru vera með inflúensu.

Áfram er unnið að samhæfingu viðbragðsaðila þar að lútandi, meðal annars með svæðisáætlunum sem ræddar eru þessa dagana um allt land á fundum á vegum sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Slíkur fundur var til dæmis á dagskrá í Reykjavík núna fyrir hádegið í dag, miðvikudag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×