Erlent

Flóttamenn handteknir við komuna til Íraks

Guðjón Helgason skrifar
Íraska lögreglan hefur handtekið fimm flóttamenn sem dönsk yfirvöld sendu heim til Íraks í gær. Sautján flóttamenn sem einnig var flogið með til Íraks munu á leið til norðurhluta landsins þar sem vinir og vandamenn eru sagðir bíða þeirra.

Flogið var með hópinn, 21 karlmann og eina konu, frá Óðinsvéum í Danmörku til Bagdad í Írak í gærmorgun. Danska útvarpið hefur eftir einum úr hópi flóttamannanna að íraskir lögreglumenn hafi handtekið fimm úr hópnum á flugvellinum í írösku höfuðborginni eftir að danskir lögreglumenn sem fylgdu hópnum út voru farnir. Aðrir flóttamenn úr hópnum hafi síðan verið á flugvellinum í nótt. Þeir hafi ekki þorað þaðan af ótta við að öryggi þeirra væri ógnað.

Fram kom á fréttavef danska útvarpsins í hádeginu að hópurinn væri nú lagður af stað til norðurhluta Íraks og það haft eftir talsmanni flóttamannahjálpar dönsku kirkjunnar. Þar bíði vinir og ættingjar fólksins sem ætli að hjálpa því eftir fremsta megni og veita því skjól.

Flóttamannahjálpin danska hefur sagt að flestir flóttamenn úr hópnum séu í lífshættu í heimalandinu og eigi enga framtíð þar.

Danska útvarpið hefur eftir fulltrúa dönsku ríkislögreglunnar að fleiri en tíu flóttamenn til viðbótar þeim sem sendir hafi verið heim bíði eftir að verða vísað frá Danmörku. Það byggir á samkomulagi danskra og íraskra stjórnvalda frá í vor um að Danir gætu sent aftur heim vel á þriðja hundrað Íraka sem hafi verið synjað um hæli í Danmörku.

Talsmaður Asylret, sem eru samtök sem aðstoða flóttamenn í Danmörku, segir í viðtali við danska útvarpi að 90 flóttamenn frá Írak séu í felum í Danmörku.

Ali Nayef er einn þeirra en hann bjó áður í Danmörku með íslenskri barnsmóður sinni. Hún er nú búsett á Íslandi með fjögurra ára syni þeirra. Ali Nayef hefur sagt í samtali við fréttastofu að hann vilji flytjast hingað. Ekki náðist í Ali Nayef í morgun.


Tengdar fréttir

Hælisleitendurnir farnir til Bagdad

Hælisleitendurnir frá Írak, sem handteknir voru í kirkju í Kaupmannahöfn í síðasta mánuði, voru í gær sendir með flugvél til Íraks. Óvissa er um örlög þeirra í heimalandinu, en dönsk stjórnvöld segjast hafa farið rétt að öllu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×