Erlent

Hælisleitendurnir farnir til Bagdad

Lögreglan í Brorsons-kirkju. Aðgerðir lögreglunnar 13. ágúst síðastliðinn vöktu hörð viðbrögð í Danmörku.nordicphotos/AFP
Lögreglan í Brorsons-kirkju. Aðgerðir lögreglunnar 13. ágúst síðastliðinn vöktu hörð viðbrögð í Danmörku.nordicphotos/AFP

 Hópur íraskra flóttamanna var sendur heim til Íraks frá Danmörku í gær, þrátt fyrir að óvissa ríkti um örlög þeirra þar. Írakarnir voru handteknir fyrir þremur vikum í Brorsons-kirkju í Kaupmannahöfn, þar sem þeir höfðu leitað hælis.

Alls voru 22 Írakar sendir heim í gær; 21 karl og ein kona. Samtals höfðu um sjötíu flóttamenn frá Írak dvalist í kirkjunni um þriggja mánaða skeið, en meirihluta þeirra tókst að komast hjá handtöku.

Meðal þeirra sem lögreglan hafði ekki hendur í hári á var ungur maður, Ali Nayef, sem á barn hér á landi með íslenskri konu. Fyrir tilviljun var hann ekki staddur í kirkjunni þegar lögreglan gerði áhlaup. Hann hefur verið í felum síðan.

Hópurinn fór um borð í flugvél í Óðinsvéum beina leið til Bagdad.

Írösku flóttamönnunum hafði verið neitað um hæli í Danmörku, en hafði engu að síður ekki verið vísað úr landi vegna óvissunnar sem beið þeirra í Írak. Í vor gerðu síðan dönsk og írösk stjórnvöld samning, sem gerði dönsku stjórninni kleift að senda til Íraks þá hælisleitendur sem ekki höfðu fengið dvalarleyfi í Danmörku. Eftir það leituðu flóttamennirnir hælis í kirkjunni og vonuðust til að fá að vera þar í friði.

Hinn 13. ágúst réðst lögreglan síðan inn í kirkjuna og handtók alla íraska flóttamenn sem þar fundust. Þessi aðgerð lögreglunnar vakti hörð viðbrögð í Danmörku. Strax sama daginn komu tólf þúsund manns saman í Kaupmannahöfn til að mótmæla brottsendingu flóttamannanna. Lögreglan var sökuð um hörku.

„Það er gjörsamlega ómannlegt að senda fólk heim þar sem óvissan ein bíður þess,“ sagði Rosa Lund, hjá samtökum sem hafa veitt írösku hælisleitendunum aðstoð.

Dönsk stjórnvöld segjast hins vegar hafa farið rétt að öllu. Birthe Rønn Hornbech, ráðherra innflytjendamála, segir að þessum hópi Íraka hafi verið neitað um hæli vegna þess að þeir sæti ekki persónulegum ofsóknum í Írak. Hún hvetur þá úr hópnum sem enn eru í Danmörku til þess að fara úr landi.

Lög um innflytjendur voru hert mjög í Danmörku árið 2002. Síðan þá er engum veitt hæli nema vera viðurkenndur flóttamaður samkvæmt Genfarsáttmála um flóttamenn, þar sem segir að flóttamenn teljist þeir sem sæti ofsóknum í heimalandi sínu vegna kynþáttar, trúar eða stjórnmálaskoðana.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×