Ríkissaksóknari ákvað í vor að taka ekki til formlegrar athugunar þrjátíu milljóna króna styrk FL Group til Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningarnar 2007, né rannsaka aðrar fyrirgreiðslur til háttsettra sjálfstæðismanna í ljósi fyrirhugaðrar sölu REI til Geysis Green, sem var að hluta í eigu FL Group.
Samkvæmt heimildum blaðsins þótti efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra ástæða til að vekja athygli Ríkissaksóknara á þessum hugsanlegu lögbrotum. Einnig vildi deildin, í ljósi fjölmiðlaumfjöllunar, skoða hvernig styrkveitingar til Sjálfstæðisflokksins kynnu að hafa tengst Landsvirkjun Power, félagi Landsvirkjunar og Landsbanka. Bankinn styrkti flokkinn um alls þrjátíu milljónir króna.
Deildin óskaði eftir afstöðu ríkissaksóknara til þessa, vegna tengsla fyrirtækjanna við orkufyrirtæki í eigu almennings.
Ríkissaksóknari taldi að ekki væru nægilegar vísbendingar til formlegrar rannsóknar á þessum málum. Þurft hefði að sýna fram á að styrkir og fyrirgreiðslur hefðu verið veittar til að hafa áhrif á afgreiðslu stjórnvalds í málum tengdum fyrirtækjunum. Erfitt væri að sanna það. - kóþ