Innlent

Þykir sölumennska Securitas óábyrg

Starfsmaður Neytendasamtakanna segir að mikið hafi heyrst um óprúttna aðila sem hringi í fólk og þykist vera að selja öryggisgæslu.
Starfsmaður Neytendasamtakanna segir að mikið hafi heyrst um óprúttna aðila sem hringi í fólk og þykist vera að selja öryggisgæslu.

„Okkur finnst þetta óábyrg sölumennska og einkennilegt að fyrirtæki sem vill tengja sig við öryggi kjósi að kynna þjónustu sína á þennan hátt,“ segir Brynhildur Pétursdóttir, starfsmaður Neytendasamtakanna. Samtökunum hefur borist kvörtun vegna símasölu öryggisvörslufyrirtækisins Securitas.

Á heimasíðu Neytendasamtakanna kemur fram að hringt hafi verið í félagsmann samtakanna að kvöldi til og honum boðin öryggisráðgjöf. Þótti manninum varhugavert að útlista í síma hvort og með hvaða hætti hann tryggði öryggi heimilisins.

Brynhildur segir viðkomandi félagsmann hafa brugðist hárrétt við hringingunni. „Hann gaf ekki upp neinar upplýsingar, heldur skellti á og kannaði svo hvaðan hringingin kom. Undanfarið hefur heyrst mikið af því að óprúttnir aðilar séu að hringja í fólk og þykjast vera að selja öryggisgæslu. Það er mjög einföld aðferð til að komast að því hvernig slíkum málum er háttað á heimilum,“ segir Brynhildur.

Trausti Harðarson, forstjóri Securitas, segir að fyrirtækinu hafi ekki borist formlegt erindi frá Neytendasamtökunum vegna málsins. „Ég tel ekki óeðlilegt að við kynnum okkar vöru á sambærilegan hátt og aðrir. Svona hefur þetta verið gert í mörg ár og afar sjaldan komið upp óánægja. Það er ekki hringt úr leyninúmerum, þannig að lítið mál er að staðfesta hvaðan símtalið kemur,“ segir Trausti Harðarson.- kg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×