Innlent

Friðarhlaup hefst á morgun

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Tuttugu og fimm hlauparar frá fimmtán þjóðlöndum taka þátt í friðarhlaupinu sem hefst á morgun. Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, ræsir hlauparana hjá gervigrasinu í Laugardal klukkan 11 í fyrramálið.

Friðarhlaupið hóf göngu sína árið 1987 og hefur verið árlegur viðburður síðan þá. Hlaupararnir fara hringinn í kringum landið á rúmum tveimur vikum en hlaupinu lýkur í Reykjavík þann 16. júlí. Um er að ræða boðhlaup þar sem hver og einn hlaupari hleypur um það bil 15 kílómetra.

„Tilgangurinn með hlaupinu er í raun vitundarvakning einstaklingsins, að hann geti lagt rækt við vináttu og búið í sátt og samlyndi við aðrar manneskjur. Einnig er lögð áhersla á innri frið einstaklingsins sem vonandi hefur þær afleiðingar að viðkomandi gefi af sér til annarra. Ef allar þjóðir sameinast í svona málum væri auðvelt að ná fram sátt og samlyndi í heiminum,“ segir Torfi Leósson, skipuleggjandi hlaupsins á Íslandi.

Hlaupið er eingöngu haldið í þágu friðar og er engin pólitík í spilinu, allir þátttakendur gefa að sjálfsögðu vinnu sína.

Hlaupið er haldið í yfir hundrað löndum, friðarhlaupinu lauk í Frakklandi í gær og næst fer hlaupið fram í Úkraínu. Hlaupararnir koma við í fjölmörgum bæjum á leið sinni og fá allir sem það vilja að hlaupa með kyndilinn.

Hér má sjá viðkomustaði hópsins:

2 júlí: Vík í Mýrdal

3 júlí: Höfn í Hornafirði

4 júlí: Egilsstaðir

5 júlí: Austfirðir

6 júlí: Borgarfjörður Eystri

7 júlí: Akureyri

8 júlí: Hvammstangi

9 júlí: Hólmavík

10 júlí: Ísafjörður

11 júlí: Barðaströnd

Hópurinn tekur ferjuna Baldur frá Brjánslæk og kemur við í Flatey á Breiðafirði.

13. júlí: Stykkishólmur

14. júlí: Borgarnes og Akranes

15. júlí: Komið við á höfuðborgarsvæðinu

16. júlí: Forseti borgarstjórnar slítur hlaupinu við Reykjavíkurtjörn








Fleiri fréttir

Sjá meira


×