Innlent

Mannekla heyrir sögunni til

Mannekla á sjúkrahúsunum var mikið til umfjöllunar fyrir skemmstu. Breytingar á þjóðfélagsaðstæðum hafa breytt þeirri mynd mikið.
fréttablaðið/pjetur
Mannekla á sjúkrahúsunum var mikið til umfjöllunar fyrir skemmstu. Breytingar á þjóðfélagsaðstæðum hafa breytt þeirri mynd mikið. fréttablaðið/pjetur

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) gerði nýverið skyndikönnun varðandi manneklu í hjúkrun og kom í ljós að um 99,98 prósent stöðugilda hjúkrunarfræðinga eru nú setin. Svör komu frá hjúkrunarstjórnendum 50 stofnana, sem ráða yfir um 65 prósentum stöðugilda hjúkrunarfræðinga í landinu, eða rúmum 1.645 stöðugildum. Sambærileg könnun árið 2007 sýndi allt aðra mynd og var mannekla þá veruleg.

Niðurstöður könnunarinnar nú gefa vísbendingar um mikla breytingu, því að hjúkrunarstjórnendur meta það svo að skortur á hjúkrunarfræðingum miðað við metna þörf sé nú 3,84 prósent, en sú tala var 21,5 prósent árið 2007. Það hefur því dregið úr skorti á hjúkrunarfræðingum til starfa vegna þjóðfélagsaðstæðna síðustu mánuði. Ástæðurnar eru að margir hjúkrunarfræðingar hafa hækkað starfshlutfall sitt, þörf fyrir hjúkrunarfræðinga hefur minnkað vegna sparnaðaraðgerða og hjúkrunarfræðingar sem hafa unnið hjá einkageiranum hafa hætt störfum og flutt sig yfir í opinbera geirann.

Áfram er það áhyggjuefni hversu stórt hlutfall hjúkrunarfræðinga nálgast eftirlaunaaldur, en tæplega fjórðungur starfandi hjúkrunarfræðinga er á aldrinum 55–64 ára og fer því á lífeyri næstu árin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×