Erlent

Tugþúsundir tamíla innikróaðar

Liðsmenn stjórnarhersins.
Liðsmenn stjórnarhersins. Mynd/AP

Stjórnvöld á Srí Lanka sögðu í gær að herinn myndi hætta þegar í stað loft- og stórskotaliðsárásum á síðustu vígi Tamíltígra. Með þessari ákvörðun var stjórnin að bregðast við miklum þrýstingi alþjóðasamfélagsins um að hlífa óbreyttum borgurum á átakasvæðinu.

Ekki var fullljóst hver áhrif ákvörðunarinnar yrðu. Herinn segist hafa hætt að beita slíkum vopnum fyrir nokkrum vikum, en talsmaður Tamíltígra segir loftárásir hersins hafa haldið áfram, jafnvel eftir tilkynninguna um að þeim hefði verið hætt. Fréttamönnum er ekki hleypt inn á átakasvæðið.

Stjórnin sendi tilkynninguna frá sér daginn eftir að hún hafnaði beiðni skæruliða um vopnahlé. Sú beiðni var borin fram til þess að þeim tugþúsundum óbreyttra borgara, sem eru innikróaðar á svæðinu þar sem síðustu bardaga-sveitir Tamíltígra eru umkringdar á norðausturströndinni, gæfist færi á að koma sér í öruggt skjól. Fulltrúi Sameinuðu þjóðanna segir að nærri 6.500 óbreyttir borgarar hafi verið drepnir í átökunum síðastliðna þrjá mánuði. - aa






Fleiri fréttir

Sjá meira


×