Innlent

Þrjú hundruð verk mikilvæg þjóðararfi

w
w
Um 300 listaverk í eigu Íslandsbanka og Nýja Kaupþings eru talin mikilvæg þjóðararfi og eigi því ekki að fara úr ríkiseigu. Þetta kemur, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins, fram í mati sem unnið hefur verið á listaverkasöfnunum. Viðræður hafa verið í gangi á milli ríkisvaldsins og bankastjórnanna um verkin og er búist við að málið klárist í næstu viku.

Þau listaverk sem mikilvæg þóttu voru sett í tvo flokka, a og b. Í a flokki eru verk sem talin eru mikilvæg fyrir íslenska listasögu. Slík eru talin vera ríflega 100 í Íslandsbanka og nálega 200 í Nýja Kaupþingi. Í flokki b eru verk sem ættu að vera aðgengileg þjóðinni á opinberum stöðum. Um 100 verk í þeim flokki eru í Íslandsbanka og 200 í Nýja Kaupþingi. Þar að auki er fjöldi verka sem ríkið mun ekki ásælast. Samanlagt nema þessir flokkar fimmtungi af listaverkaeign Íslandsbanka og þriðjungi hjá Kaupþingi.

Ekki er ætlunin að ríkið kaupi verkin þegar í stað, heldur öðlist kauprétt að þeim. Þá er verið að semja um möguleika á að bankarnir gefi einhver verk. Um þónokkur verðmæti er að ræða, en stuðst verður við bókfært mat verkanna við uppgjör bankanna. Það er þó talið töluvert undir markaðsvirði.

Um listaverk Landsbankans gildir öðru máli þar sem hann verður áfram í eigu ríkisins. Þar er að finna stærsta listaverkasafnið í bönkunum þremur.

Fjöldi verkanna er slíkur að ríkið á í raun ekki hægt um vik með að geyma þau. Þau eru því talin best geymd þar sem þau eru, í bönkunum, að því gefnu að ríkið eignist kauprétt að þeim.

Samið verður við bankastjórnir um að verkin verði reglulega til sýnis. Þar hjálpar hefðin, því bankarnir þykja í gegnum tíðina hafa verið duglegir við að sýna verk sín.

kolbeinn@frettabladid.is
Kaupþing Í Kaupþingi eru um 200 verk sem talin eru mikilvæg fyrir íslenska listasögu. Samningar hafa staðið á milli ríkisvaldsins og bankastjórna Kaupþings og Íslandsbanka um hvað verður um verkin.fréttablaðið/stefán



Fleiri fréttir

Sjá meira


×