Innlent

Alls 122 sektaðir í Laugardal

stöðubrot Aðalvarðstjóri segir fleiri hundruð bílastæði hafa verið laus í nágrenninu.fréttablaðið/pjetur
stöðubrot Aðalvarðstjóri segir fleiri hundruð bílastæði hafa verið laus í nágrenninu.fréttablaðið/pjetur
Alls þurfa 122 ökumenn að greiða stöðubrotsgjald eftir að hafa lagt ólöglega í nágrenni Laugardalshallarinnar á laugardag þegar Þjóðfundurinn fór þar fram. Stöðubrotsgjald nemur 2.500 krónum , en afsláttur er gefinn af þeirri upphæð ef gjaldið er greitt innan þriggja daga. Gjaldið rennur í Bílastæðasjóð.

Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar, segir að talsvert hafi borist af kvörtunum vegna þessa á laugardag. „Það eru hvorki efni né ástæður fyrir þessum kvörtunum. Þeir sem leggja ólöglega þurfa að greiða stöðubrotsgjald, og gildir þá einu hvort Þjóðfundur eða íþróttakappleikur á sér stað í nágrenninu.“

Guðbrandur segir fleiri hundruð laus bílastæði hafa verið í nágrenni Laugardalshallarinnar á laugardag. Kvartanir hafi borist frá íbúum í Laugardalnum vegna umgengni ökumanna á svæðinu. „Við höfum verið að reyna að bæta ástandið í Laugardalnum undanfarna mánuði. Þarna er nóg af bílastæðum, til dæmis við hlið Laugardalslaugarinnar, við Laugardalsvöllinn og hjá Húsdýragarðinum og Skíðahöllinni, og því engin ástæða fyrir fólk til að leggja ólöglega,“ segir Guðbrandur Sigurðsson.- kg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×