Innlent

Fjórða hver kona beitt líkamlegu eða andlegu ofbeldi

Höskuldur Kári Schram skrifar
Tæplega fjórðungur kvenna á Íslandi hefur orðið fyrir kynferðislegu, líkamlegu eða andlegu ofbeldi af hálfu sambýlismanns samkvæmt nýrri rannsókn. Tæplega 3000 konur tóku þátt í rannsókninni.

Rannsóknin er kynnt í júlíútgáfu hjúkrunarfræði-tímaritsins Journal of Advanced Nursing - en markmið rannsóknarinnar var að kanna heilsufarsleg áhrif heimilisofbeldis á konur.

Spurningar voru sendar til yfir 7000 kvenna hér á landi - á aldrinum 18 til 67. Svör bárust frá rétt rúmlega 2700. Er þetta ein viðamesta rannsókn sem gerð hefur verið á þessu sviði í heiminum.

Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur fram að tæplega fjórðungur kvenna hér á landi hefur orðið fyrir líkamlegu, andlegu eða kynferðislegu ofbeldi af hálfu maka. 18,2% sögðust hafa orðið fyrir andlegu ofbeldi, 3,3% fyrir líkamlegu og 1,3% fyrir kynferðislegu ofbeldi.

Brynja Örlygsdóttir, doktor í hjúkrunarfræði og Erla Kolbrún Svavarsdóttir, prófessor við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, stóðu að rannsókninni.

Í rannsókninni kemur meðal annars fram að konur sem hafa orðið fyrir heimilisofbeldi eru til dæmis líklegri til að reykja og neyta fíkniefna.

Brynja og Erla segja mikilvægt að íslenskir heilbrigðisstarfsmenn séu meðvitaðir um afleiðingar heimilisofbeldis á heilsufar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×