Enski boltinn

Jafnt í grannaslag Tottenham og Arsenal

Emmanuel Eboue lét reka sig af velli
Emmanuel Eboue lét reka sig af velli AFP

Tottenham og Arsenal skildu jöfn 0-0 í fyrri leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Flestir hafa eflaust búist við markaveislu á White Hart Lane í dag eins og svo oft þegar þessir erkifjendur leiða saman hesta sína, en það var ekki í boði í dag.

Dramatíkin var þó á sínum stað og fékk Emmanuel Eboue að líta rauða spjaldið í fyrri hálfleik eftir að hafa náð sér í tvö gul spjöld fyrir óþarfa kjánaskap. Þá þurfti nafni hans Adebayor að yfirgefa völlinn meiddur aftan í læri og útlitið því ekki gott fyrir Arsenal.

Tottenham réði gangi leiksins í fyrri hálfleik, en Arsenal hélt sínu og vel það í síðari hálfleiknum og var í raun alveg jafn líklegt til að skora eins og heimamenn.

Niðurstaðan í dag var því jafntefli og því hefur Arsenal jafnað félagsmet. Liðið hefur ekki tapað fyrir grönnum sínum í síðustu 19 viðureignum liðanna í deildinni.

Bæði lið þurftu á þremur stigum að halda, Arsenal í baráttunni um sæti í Meistaradeildinni og Tottenham í fallbaráttunni.

Arsenal er í fimmta sæti deildarinnar með 44 stig en Tottenham í 15. sæti með 25 stig.

West Ham og Manchester United eigast við klukkan 16:00 og er sá leikur sýndur beint á Stöð 2 Sport.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×