Íslenski boltinn

Arnar og Bjarki hættir hjá ÍA

Elvar Geir Magnússon skrifar
Arnar og Bjarki eru hættir hjá ÍA.
Arnar og Bjarki eru hættir hjá ÍA.

Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir hafa látið af störfum sem þjálfarar og leikmenn hjá ÍA. Skagamenn hafa ollið miklum vonbrigðum á tímabilinu og sitja sem stendur í þriðja neðsta sæti 1. deildarinnar. Markmiðið fyrir sumarið var að fara beint aftur upp í efstu deild.

Þórður Þórðarson mun stýra liðinu út tímabilið. Hér að neðan má sjá yfirlýsingu af heimasíðu ÍA:

„Það er sameiginleg ákvörðun stjórnar Rekstrarfélags meistara- og 2. fl. Knattspyrnufélags ÍA og þeirra Arnars og Bjarka Gunnlaugssona að þeir láti af störfum sem umsjónarmenn meistaraflokks félagsins. Ákvörðun þessi er tekin af báðum aðilum með hagsmuni félagsins að leiðarljósi og þakkar Knattspyrnufélag ÍA þeim bræðrum innilega fyrir þeirra framlag í þágu félagsins.

Arnar og Bjarki voru ráðnir til félagsins við mjög erfiðar aðstæður um mitt síðasta ár og svöruðu þá kalli félagsins þó öllum mætti ljóst vera að verkefnið yrði gríðarlega erfitt. Eins og alltaf þegar til þeirra hefur verið leitað hafa þeir gert sitt ýtrasta til að verða félaginu að liði og hafa þeir sinnt störfum sínum af stakri samviskusemi nú sem endranær.

Ákvörðun beggja aðila er tekin í ljósi erfiðrar stöðu meistaraflokks í 1. deild karla, þar sem árangur sumarsins er undir þeim kröfum sem gerðar eru til knattspyrnunnar á Akranesi.

Þórður Þórðarson yfirþjálfari félagsins mun taka við umsjón meistaraflokks til loka tímabilsins og honum til aðstoðar verða aðrir starfsmenn og þjálfarar félagsins.

Það er ljóst að þegar árangur liðsins hefur verið eins og raun ber vitni á undanförnum árum að taka verður allt starf félagsins til skoðunar þar sem og allir þeir aðilar sem að málum koma verða að taka til sín sinn hluta ábyrgðar, þ.m.t. stjórn rekstrarfélagsins."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×