Erlent

Birtir auglýsingu til að krefjast peninga frá Singer & Friedlander

Staðarblaðið Manchester Evening News hefur sett af stað herferð til þess að krefjast þess að Christie spítalinn fái endurgreiddar 6,5 milljónir punda, eða rúmlega einn milljarð íslenskra króna, sem tapaðist þegar að Singer & Friedlander banki Kaupþings féll í október.

Í auglýsingu sem blaðið hefur birt eru lesendur beðnir um að fylkja sér að baki herferðinni, en peningarnir sem töpuðust áttu að fara til uppbyggingar tveggja krabbameinsstöðva. Uppbyggingu þessara stöðva hefur verið frestað vegna málsins.

Til viðbótar við þetta eru stjórnendur jafnframt að reyna að fá endurgreiddda 1 milljón sterlingspunda frá bankanum, eða 160 milljónir króna, með hjálp skiptastjóra.

Auk þess að birta auglýsingu í blaðinu hefur Manchester Evening News jafnframt sett á fót undirskriftarsöfnun á netinu þar sem 2400 hafa skrifað undir.

Gordon Brown forsætisráðherra Breta var spurður út í herferðina á föstudaginn. „Ég mun skoða þetta mjög vandlega. Ég myndi vilja að íslensk yfirvöld gætu greitt til baka peningana. Við erum í samningaviðræðum við þá um það," sagði Gordon Brown.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×