Innlent

Ný erlend spennusagnaröð gerist hér

Michael Ridpath.
Michael Ridpath.

Ný bókaröð breska metsöluhöfundarins Michaels Ridpath gerist hér á landi. Fyrsta bókin í bókaröðinni, sem nefnist Where the Shadows Lie, kemur út í júní á næsta ári hjá bókaútgáfunni Corvus í Bretlandi. Þegar hefur verið samið um útgáfu hér.

„Ég kom til Íslands árið 1995 þegar ég var að kynna mína fyrstu bók Free to Trade [sem Vaka-Helgafell gaf út undir heitinu Myrkraverk] og fannst landið mjög heillandi. Frá þeim tíma gekk ég með þá hugmynd í maganum að gaman gæti verið að skrifa bók sem gerðist á Íslandi," segir Ridpath. Hugmyndin hafi svo öðlast nýtt líf fyrir um tveimur árum þegar hann ákvað að hverfa frá ritun spennusagna um fjármálaheiminn.

Ridpath hefur komið hingað þrisvar á þessum tveimur árum og kveðst æ hugfangnari af sögusviðinu. „Og ég á eftir að koma miklu oftar, enda að mörgu að gæta þegar skrifunum vindur fram." Hann er þegar byrjaður á bók tvö og segir kaldhæðni örlaganna að brostið hafi á með efnahagshruni þegar hann ætlaði sér að láta af fjármálatengdum skrifum.

„Hjá því varð ekki komist að láta hrunið koma við sögu. En snertiflöturinn er frekar við fórnarlömb fjármálakreppunnar en sjónarhól bankamanna."

Michael Ridpath segir hugmyndinni um nýju bókaröðinni hafa verið afar vel tekið og þegar eru komnir tíu útgefendur, flestir í Evrópu, Ísland er þar á meðal, og einn í Brasilíu.

Bjarni Þorsteinsson, útgáfustjóri Bjarts Veraldar, staðfestir að verið sé að leggja lokahönd á íslenska þýðingu bókarinnar. „Við stefndum á útgáfu nú fyrir jólin, en það hafðist ekki. Bókin kemur út á næsta ári, en ekki er búið að negla niður hvenær," segir hann.

Aðalsöguhetja bókanna er rannsóknarlögreglumaður í Boston í Bandaríkjunum sem er af íslenskum ættum. Hann heitir Magnus Jonson og er fæddur hér á landi en ólst upp vestra frá tólf ára aldri.

Hann hrekst hins vegar til Íslands eftir að hafa lent upp á kant við eiturlyfjahring í Boston. Þá hefur hann hug á að spreyta sig á óleystu morði á föður sínum.

Þá blandast í söguna dularfullt handrit sem fjölskylda ein á að hafa gætt í átta hundruð ár. Rithöfundurinn J.R.R. Tolkien á að hafa fengið að sjá skjalið árið 1930, en í því er greint frá hring sem í er falinn ægimáttur. Skjalið er því eftirsótt í sjálfu sér og tengist rannsókn á morði á prófessor í íslenskum bókmenntum. Svo er bara spurningin hvort hringurinn er til.

olikr@frettabladid.is










Fleiri fréttir

Sjá meira


×