Innlent

Einar Skúlason býður sig fram gegn sitjandi borgarfulltrúa

Einar Skúlason, fyrrum framkvæmdarstjóri Alþjóðahússins, hefur ákveðið að bjóða sig fram gegn Óskari Bergssyni, borgarfulltrúa, í fyrsta sætið í prófkjöri Framsóknarmanna í Reykjavík sem fram fer í lok nóvember.

Einar hefur starfað sem skrifstofustjóri þingflokks Framsóknarflokksins en sagði upp störfum í gær.

„Það eru margir búnir að skora á mig og ég hugsaði þetta mál vandlega," segir Einar í viðtali við Vísi en mikið er í húfi fyrir hann að eigin sögn þar sem hann þurfti að segja starfi sínu lausu.

Einar hringdi í Óskar í gærkvöldi og tilkynnti honum ákvörðun sína.

„Við erum samherjar og tökumst á í samræmi við það," segir Einar og bætir við að það sé mikilvægt að grasrót flokksins fái að ráða.

Einar er 38 ára Reykvíkingur og þriggja barna faðir og hefur alið mestalla sína tíð í borginni. Hann er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og MBA gráðu frá Háskólanum í Edinborg. Á háskólaárunum var hann virkur í stúdentapólitíkinni, sat í stúdentaráði fyrir Röskvu og gegndi starfi framkvæmdastjóra Stúdentaráðs árin 1996-1997.

Prókjörið fer fram þann 28. nóvember næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×