Innlent

Framkvæmdastjóri Strætó biðst afsökunar

Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó Bs.
Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó Bs.

Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó Bs, vill koma á framfæri afsökunarbeiðni til foreldra átta ára drengs sem var settur út úr leið S1 í Hamraborg í Kópavogi í gær vegna plássleysis. Móðir drengsins hafði samband við Vísi í gær, verulega ósátt.

Málavextir eru í stuttu máli þeir að drengurinn var ásamt fimmtán ára bróður sínum á leið heim úr Kringlunni en þeir búa í Setberginu í Hafnarfirði. Þeir höfðu hjól meðferðis. Þegar vagninn stoppaði í Hamraborginni voru drengirnir settir út vegna plássleysis.

„Þetta er vissulega leiðinlegt atvik og er sem betur fer fátítt að upp komi svona „árekstrar" við þá fjölmörgu farþega sem við flytjum á degi hverjum," segir Reynir. Hann bendir á að það komi fram á vefsíðu strætó að leyfilegt sé að vera með reiðhjól ef pláss er í vagninum, en barnavagnar og hjólastólar hafi forgang.

Hann segir þó að í þessu tilfelli hefði bílstjórinn getað brugðist við með öðrum hætti. „Hann hefði til dæmis getað sagt: „Strákar mínir, því miður er vagninn fullur. Hér eru skiptimiðar og næsti vagn stoppar hérna eftir hálftíma. Þá hefðu þeir allavega vitað hvað þeir áttu að gera," segir Reynir og telur að setja þurfi í verklagsreglur bílstjóra að þeir megi vera sveigjanlegri í tilvikum þar sem að svo ung börn eiga í hlut.

Hann bendir á að reiðhól eru ekki heimiluð í strætisvögnum í nágrannalöndunum. Aðrir farþegar eigi til að óhreinkast vegna hjólanna og ef slíkt gerist þurfi Strætó að greiða fyrir tjónið sem af því hlýst.

Reynir segir þetta einstaka tilvik vera andsi óheppilegt og vill hann koma á framfæri afsökunarbeiðni fyrir hönd Strætó Bs. til foreldra drengsins. „Ég hef beðið mitt fólk að setja sig í samband við foreldrana og biðja þá afsökunar á þessu atviki."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×