Innlent

Vill afgreiða ESB umsókn út úr nefnd í dag

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Árni Þór Sigurðsson í þinginu.
Árni Þór Sigurðsson í þinginu. Mynd/GVA
Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, vonast til þess að hægt verði að afgreiða þingsályktunartillögu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu út úr nefndinni í dag. Málið er á dagskrá nefndarinnar klukkan 18 síðdegis.

Ályktunartillagan var fyrst lögð fyrir þingið undir lok maí, en stjórnarandstaðan lagði jafnframt fram eigin tillögu um málið. Árni segir þó ganga ágætlega að samræma vilja beggja. Til dæmis hafi nefndin unnið að greinargerð og vegvísi að umsókn í samræmi við vilja stjórnarandstöðunnar.

„Það má segja að það sé ágætur samhljómur um mjög marga hluti, en líka ágreiningur um viss atriði," segir Árni. Hann segir einkum standa út af hvernig farið verði með staðfestingu á hugsanlegum aðildarsamningi, tímasetningu á þjóðaratkvæðagreiðslu og öðru í sama dúr.

Árni segist þó stefna að því að geta lagt málið fram á þingi á morgun.

Utanríkismálanefndin hefur haft í nógu að snúast, enda einnig með Icesave á sinni könnu. Nefndin heldur áfram að fá gesti á sinn fund í dag og á morgun, en á gestalistanum eru meðal annarra lögfræðideild seðlabankans og sendiherra Íslands í London og Hollandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×