Erlent

Tölvuglæpir aldrei fleiri en í júní

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Tölvuþrjótum vex nú fiskur um hrygg sem aldrei fyrr og settu þeir nýtt met í iðju sinni í júnímánuði.

Í nýrri skýrslu frá vírusvarnafyrirtækinu Fortinet kemur fram að hvers kyns árásir og innbrot í tölvur, þar sem heimatilbúnum innrásarforritum er beitt, hafi aldrei verið fleiri en í nýliðnum júnímánuði. Yfirleitt gerist þetta þannig að svokölluðum malware-hugbúnaði er beitt en hann er einkum gerður til þess að skaða tölvur, valda truflunum og stela ýmsum gögnum, svo sem lykilorðum.

Grandalausir tölvunotendur þurfa þó yfirleitt að gera eitthvert glappaskot til að opna dyr sínar fyrir slíkum óboðnum gestum, svo sem að opna viðhengi með tölvupósti eða fara inn á vafasamar netsíður. Flestar tölvuárásir heimsins koma frá Bandaríkjunum en Asía fylgir fast á eftir og eru Singapore, Japan og Kórea þar atkvæðamestu svæðin.

Í langflestum tilfellum nægir heilbrigð skynsemi til að halda vágestum frá heimilistölvunni. Gylliboð í tölvupóstum, ótrúleg tilboð og tilkynningar um að þú hafir verið svo heppin(n) að vinna milljarð í alheimsnetlottói sem þú aldrei tókst þátt í eiga aðeins eitt sameiginlegt - þau eiga að fara beint í ruslafötuna rafrænu, óopnuð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×