Erlent

Leiðtogar hittast og ræða heimsmálin

Leiðtogar G8-ríkjanna koma saman í jarðskjálftabænum L'Aquila á Ítalíu í dag, þar sem þeir ætla að ræða heimsmálin og snæða saman næstu þrjá daga.

Efnahagskreppan verður aðalmálið í viðræðunum, en einnig er áhersla á loftslagsmál og öryggismál. Einnig þykir nokkuð ljóst að átökin í Xinjiang-héraði í Kína verði eitthvað rædd við Hu Jintao, forseta Kína.

G8-ríkin eru Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Ítalía, Japan, Kanada, Rússland og Þýskaland. Auk þess hafa fimm upprennandi efnahagsveldi fengið þátttökurétt í fundarhöldunum, en þau eru Brasilía, Indland, Kína, Mexíkó og Suður-Afríka.

Í gær tóku Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti og Luiz Inacio Lula da Silva, forseti Brasilíu, höndum saman og hvöttu til að þessi upprennandi efnahagsveldi fengju aukið vægi í alþjóðamálum.

Angela Merkel Þýskalandskanslari tók undir þetta og sagðist reikna með að tuttugu ríkja hópur stærstu efnahagsvelda heims yrði mikilvægasti vettvangurinn af þessu tagi innan tíðar.

Að þessu sinni er G8-fundurinn haldinn á Ítalíu, og hinn umdeildi forsætisráðherra Silvio Berlusconi setur óneitanlega svip sinn á samkomuna.

Hann kom því til leiðar að fjallaþorpið L'Aquila yrði fundarstaður, en harður jarðskjálfti varð nærri 300 manns þar að bana í vor. Aðstæður þar eru töluvert verri en þjóðarleiðtogarnir eiga að venjast. Í stað glæsihótela er þeim boðið upp á gistingu í harla frumstæðum skálum, enda þurftu meira en fimmtíu þúsund manns að yfirgefa heimili sín og búa nú í tjöldum eða á gistihúsum.

Staðsetningin er hugsuð til að sýna samstöðu með fórnar­lömbum jarðskjálftans, en íbúar á svæðinu kvarta engu að síður undan því að miklir fjármunir fari í fundarhöldin. Þetta fé hefði verið hægt að nota til að laga vegi og húsnæði sem varð fyrir skemmdum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×