Lífið

Íslandsvinirnir í Blur byrjaðir aftur

Guðjón Helgason skrifar
Blur
Blur

Íslandsvinirnir í hljómsveitinni Blur eru komnir aftur á fullt. Damon Albarn og félagar hafa ákveðið að taka upp þráðinn aftur eftir níu ára hlé. Hundrað og fimmtíu manns mættu á tónleika þeirra á lestrsafni í Colchester á Englandi í gærkvöldi en þar komu þeir fyrst fram opinberlega árið 1988.

Britpop hljómsveitin Blur var stofnuð í Lundúnum árið 1988 af æskuvinunum Damon Albarn og Graham Coxon. Albarn söng og Coxon lék á gítar. Við bættust bassaleikarinn Alex James og trommuleikarinn Dave Rowntree.

Hljómsveitin náði ekki almennum vinsældum fyrr en um miðjan tíunda áratug síðustu aldar. Lög á borð við Parklife, Girls & Boys og síðan Country House náðu töluverðum vinsældum í Evrópu og vestanhafs. Hljómsveitin átti lengi í samkeppni við Gallagher bræðurna í hljómsveitinni Oasis.

Liðsmenn Blur komu oft til Ísland meðan hljómsveitin var hvað vinsælust og héldu tónleika og tóku upp plötu. Albarn keypti hús og knæpu á Íslandi og bjó hér um skeið.

Blur hætti að skemmta fyrir níu árum þó síðasti diskur hljómsveitarinnar, sá sjöundi í röðinni, hafi komið út 2003.

Í fyrra tilkynntu Albarn og Coxon að hljómsveitin myndi koma aftur saman í sumar og varð uppsellt á fyrirhugaða tónleika í Hyde-garði í Lundúnum í júlí á tveimur mínútum.

Hljómsveitin kom saman í gær á tónleikum í litlum sal lestarsafns í Colchester á suð-austur Englandi. Þar kom hljómsveitin fyrst fram opinberlega fyrir tuttugu og einu ári.

Hundrað og fimmtíu gestir fylgdust með og segir gagnrýnandi BBC að vel hafi tekist til. Hljómsveitin eigi án efa eftir að gera það gott á tónleikaferð í sumar þar sem hún skemmtir á helstu hátíðum á borð við Glastonbury á Englandi og hátíðum í Skotlandi og á Írlandi. Þar munu vinsælustu lögin hljóma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.