Erlent

Alríkislögreglan vísar ábyrgð Talíbana á bug

Bandaríska alríkislögreglan, FBI, vísar því alfarið á bug að pakistanskir Talíbanar hafi fyrirskipað morðárás á þjónustumiðstöð innflytjenda í Binghamton í New York-ríki í Bandaríkjunum í gær.

Þrettán féllu í árásinni og fjórir særðust lífshættulega. Ódæðismaðurinn svipti sig lífi. Baitullah Mehsud, leiðtogi Talíbana í Pakistan, hringdi í fréttaveitur í morgun og sagðist hafa fyrirskipað árásina en lagði ekki fram sannanir fyrir því. Fyrr í vikunni hótaði hann árásum í Bandaríkjunum í hefndarskyni fyrir loftárásir á bækistöðvar Talíbana í Pakistan nærri landamærunum að Afganistan sem kostað hafa mörg hundruð manns lífið.

Reuters fréttastofan hefur eftir talsmanni FBI að alríkislögreglan leggi engan trúnað á yfirlýsingu Mehsud og fullyrðir að hann og Talíbanar beri enga ábyrgð á morðárásinni í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×