Innlent

Lonely Planet setur Ísland í toppsætið

Ferðamenn í Reykjavík Vegna kreppunnar og falls krónunnar er ekki lengur dýrt að vera ferðamaður á Íslandi.
Ferðamenn í Reykjavík Vegna kreppunnar og falls krónunnar er ekki lengur dýrt að vera ferðamaður á Íslandi.

Lonely Planet, umsvifamesti útgefandi ferðabóka í heiminum, setur Ísland í efsta sæti á lista yfir þá staði sem hagkvæmast er að ferðast til á næsta ári. Þetta kemur fram í nýjustu ferðabók útgefandans, Best in Travel 2010.

„Hefur þig alltaf langað að heimsækja þetta töfrandi og dularfulla land? Skoða jökla og eldfjöll og busla í heitum hverum? Hefurðu hætt við að fara vegna þess hversu dýrt það er að vera á Íslandi? Jæja, árið 2010 er rétti tíminn til að fara,“ segir í ferðabókinni.

Efnahagskreppan hefur gert það að verkum að ekki er lengur dýrt að vera ferðamaður á Íslandi og því er landið í toppsætinu yfir þá staði sem Lonely Planet telur hagkvæmast að ferðast til.

Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að það hafi mikla þýðingu fyrir ferðaþjónustuna að Lonely Planet skuli telja Ísland vænlegan kost fyrir ferðalanga.

„Okkur veitir ekki af svona góðri landkynningu,“ segir Erna. „Þetta er náttúrulega gríðarlega stór útgefandi og milljónir manna lesa þessar bækur þannig að það er alveg eins líklegt að þarna séu að opnast nýir markaðir fyrir íslenska ferðaþjónustu.“

Erna segir að útlit sé fyrir að fjöldi ferðamanna í ár verði svipaður og á síðasta ári, um 500 þúsund. Hún segir að þó að ferðamönnum sem hingað komi vegna ráðstefnuhalda hafi fækkað, og einnig hafi færri breskir ferðamenn komið, hafi ferðum frá Mið-Evrópulöndunum fjölgað töluvert.

Erna segist nokkuð bjartsýn fyrir næsta ár. Þó verði sífellt erfiðara að meta fjölda ferðamanna fram í tímann þar sem fólk bóki með miklu styttri fyrirvara nú en áður.trausti@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×