Innlent

Vilja endurskoða samstarfið við AGS

Jóhanna Sigurðardóttir Forsætisráðherra flytur skýrslu um efnahagshrun og endurreisnina á Alþingi í gær. fréttablaðið/vilhelm
Jóhanna Sigurðardóttir Forsætisráðherra flytur skýrslu um efnahagshrun og endurreisnina á Alþingi í gær. fréttablaðið/vilhelm

Samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn var í brennidepli í umræðum um skýrslu forsætisráðherra um efnahagshrunið og endurreisnina á Alþingi í gær. Þá var ár liðið frá því að neyðarlögin voru sett en á þeim var yfirtaka ríkisins á bönkunum grundvölluð.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði nauðsynlegt að endurskoða samstarfið og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði sjóðinn ekki leiða okkur út úr kreppunni. Þvert á móti væri hætta á að innviðir samfélagsins skemmdust ef stefnu sjóðsins væri fylgt í blindni.

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, kvaðst vilja koma Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í burtu enda væri hann farinn að valda tjóni.

Lilja Mósesdóttir, þingmaður VG, sagði sjóðinn hafa smátt og smátt hert tökin á Íslendingum með þeim afleiðingum að undirstöður efnahagslífsins hefðu veikst. Minnti hún á að hún hefði varað við samstarfinu þegar til þess var stofnað.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði að á sínum tíma hefði Ísland átt þann kost einan að leita samstarfs við AGS. Samstarfið sé enn snar þáttur í efnahagsstefnu stjórnvalda og verði til vors 2011.

Í ræðu sinni fór Jóhanna yfir aðdraganda hrunsins. Staldraði hún við einkavæðingu Landsbankans og Búnaðarbankans, innlánsreikninga Landsbankans og Kaupþings í útlöndum, viðskiptasiðferði, spillingu og græðgi.

Hún sagðist hafa þrásinnis spurt í þinginu um málefni bankanna, vöxt þeirra, krosseignatengsl, innstæðutryggingar og eignarhaldsfélög. „Engin skýr og skilmerkilög svör bárust,“ sagði Jóhanna. „Undirstrikað var þó oftast að ekki væri hætta á ferðum.“

Jóhanna sagði allt hafa brugðist; bankana, stjórnkerfið, stjórnmálin, eftirlitskerfið, fjölmiðlana og hugmyndakerfi hins frjálsa markaðar. Baðst hún því næst afsökunar á vanrækslu og andvaraleysi stjórnvalda.

Undir lok máls síns hét hún á þing og þjóð að kveðja ár hrunsins og beina sjónum í ríkari mæli fram á veginn. Horfa til uppbyggingarinnar og tækifæranna. Sagði hún að þótt margt hefði breyst þá sé Ísland og verði land tækifæranna.

bjorn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×