Innlent

Náið samráð við borgarbúa

Hann vill að aðalskipulag borgarinnar verði unnið í nánu samstarfi við borgarbúa.
Hann vill að aðalskipulag borgarinnar verði unnið í nánu samstarfi við borgarbúa.

Aðalskipulag Reykjavíkur verður unnið í nánu samráði við borgarbúa og áhersla lögð á þverpólitíska sátt. Þetta er meðal þess sem fram kom á kynningarfundi um endurskoðun á aðalskipulagi Reykjavíkur í gær.

Júlíus Vífill Ingvarsson, for­maður skipulagsráðs Reykjavíkur, leggur áherslu á að aðalskipulag sé sá grunnur sem skipulag borgarinnar byggi á og ekki eigi að breyta nema nauðsyn krefji. Því hafi verið lögð áhersla á að aðalskipulagið sé unnið í nánu samráði við borgarbúa og um það ríki þverpólitísk sátt, en fulltrúar úr öllum flokkum sátu í stýrihópnum. Júlíus boðar fundaröð í öllum hverfum Reykjavíkur, þar sem íbúar geta reifað sín sjónarmið um skipulagsmál í hverfinu.

Spurður um afdrif Reykjavíkurflugvallar segir Júlíus ekki vilja leggja af stað með fastmótaðar hugmyndir í þeim efnum, en ljóst sé að létt hafi á þrýstingi í þeim efnum þar sem hægt hafi á uppbyggingu í borginni. Þá verði þau nýmæli í endurskoðuðu aðalskipulagi að skýr viðmið verði sett um hæð húsa í borginni.

Að sögn Júlíusar mun undirbúningsvinnan standa fram í febrúar og tillaga um nýtt aðalskipulag líta dagsins ljós í framhaldi af því. Hann á þó ekki von á að tillagan verði samþykkt á þessu kjörtímabili en vonandi ekki síðar en næsta sumar eða haust. Nánari upplýsingar um endurskoðun aðalskipulags Reykjavíkur má finna á nýopnuðum vef, adalskipulag.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×