Innlent

Tryggva Þór ekki snúist hugur

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. MYND/Anton Brink
Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. MYND/Anton Brink
„Alls ekki," segir Tryggvi Þór Herbertsson, aðspurður hvort honum hafi snúist hugur síðan hann ræddi við BBC í viðtali sem birtist þann 6. október 2008. Í samtali hans við breskan blaðamann féllst Tryggvi á ábyrgð hins íslenska tryggingasjóðs innistæðueigenda á breskum innistæðum í Icesave málinu.

„Það efast enginn um að innistæðutryggingasjóðurinn sé ábyrgur fyrir innistæðunum, en gráa svæðið er hvort að ríkið sé ábyrgt fyrir tryggingasjóðnum," bætir Tryggvi við.

Hann segist þó ekki vera andsnúinn því að Ísland ábyrgist erlendar innistæður Landsbankans, en hefði viljað sjá kveðið á um ákveðna hámarksgreiðslu á ári í Icesave samningunum sem endurspeglar greiðslugetu landsins.

„Við erum búin að semja um vexti sem geta verið allt að 300 milljarðar. Það er ekki það sem ég vil að við stöndum undir. Ég vil ekki að við greiðum meira en eitt prósent landsframleiðslu á ári í sjö ár," segir Tryggvi, og áréttar að í samtalinu við BBC hafi vextirnir aldrei komið til tals heldur einungis höfuðstóllinn.

Hann segir Icesave málið hafa komið upp vegna kerfisgalla í evrópska regluverkinu, og það sé óeðlilegt að Íslendingar beri einir kostnaðinn af þeim galla.

Í viðtalinu við BBC sagðist Tryggvi einnig viss um að rekstur bankanna væri heilbrigður og yrði þannig áfram, aðeins örskömmu áður en ríkið yfirtók Landsbankann. Trúði Tryggvi því að hægt væri að bjarga bönkunum, eða var hann að tala gegn betri vitund?

„Það sem við trúðum alveg fram á síðasta dag var að það tækist að bjarga þessu. Viðtalið átti sér stað á laugardegi. Það er ekki fyrr en á sunnudagskvöldi og -nóttu sem við sjáum fram á að þetta er ekki hægt og handklæðinu er hent inn," segir Tryggvi og segir allt hafa verið reynt til að bjarga bönkunum áður en þeir voru yfirteknir.




Tengdar fréttir

Tryggvi Þór lofaði ríkisábyrgð á Icesave

Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lýsti því yfir að íslenska ríkið myndi standa við skuldbindingar sínar vegna breskra innistæðueigenda í samtali við fréttastofu BBC, sem birti frétt um málið þann 6. október 2008. Þá voru liðnir nokkrir dagar frá því að ríkið yfirtók Glitni, og órói hafði gripið um sig meðal innistæðueigenda Landsbankans erlendis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×