Innlent

Óvenju margir nemendur á Eiðum

Óvenjumargir nemendur stunda nú nám á Eiðum. Það er þó aðeins tímabundið meðan skólabyggingarnar eru til bráðabirgða nýttar fyrir yngri bekki Egilsstaðaskóla. Heimamenn í Eiðaþinghá óttast að eftir þennan vetur muni húsakynnin grotna niður.

160 börn úr fimm yngstu árgöngum Egilsstaðaskóla stunda nám á Eiðum í vetur en það er bara meðan verið er að byggja nýja grunnskóla í bænum, sem á að vera tilbúinn næsta haust. Gamli barnaskólinn á Eiðum handan þjóðvegar hefur síðastliðinn áratug verið nýttur fyrir tvo yngstu árgangana á Egilsstöðum en í vor stefnir í að skólahald leggist endanlega af á Eiðum. Fólkið í sveitinni óttast að nú muni allt drabbast niður.

Veglegar byggingarnar hafa á sumrin verið nýttar undir hótelrekstur. Fyrir átta árum seldi sveitarfélagið Eiða til þeirra Sigurjóns Sighvatssonar og Sigurðar Gísla Pálmasonar í von um að þar yrði rekin menningarstarfsemi.

125 ár eru liðin frá því Eiðar urðu helsta menntasetur Austurland með stofnun búnaðarskóla. Síðan tók við Alþýðuskólinn, sem rekinn var sem héraðsskóli til ársins 1995. Menntaskólinn á Egilsstöðum nýtti Eiða um þriggja ára skeið en frá 1998 hafa menn verið að leita að nýju hlutverki. Þingmennirnir Hjörleifur Guttormsson og Jón Kristjánsson lögðu til á Alþingi að Eiðar yrðu háskólamiðstöð í ætt við Bifröst en fengu ekki hljómgrunn þá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×