Innlent

Reykjanesbær kaupir land og jarðhitaréttindi í Svartsengi

Bækistöðvar hs ORKu Reykjanesbær kaupir landssvæði við Svartsengi á 940 milljónir króna.fréttablaðið/vilhelm
Bækistöðvar hs ORKu Reykjanesbær kaupir landssvæði við Svartsengi á 940 milljónir króna.fréttablaðið/vilhelm

„Reykjanesbær er að kaupa land og jarðhitaréttindi til að tryggja að auðlindirnar séu í eigu almennings,“ segir Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar. Stjórn HS Orku samþykkti í gær að selja land og jarðhitaréttindi í Svartsengi til Reykjanesbæjar.

Einnig hefur verið samþykkt að Reykjanesbær kaupi allan hlut Geysis Green Energy í HS Veitu og á eftir kaupin 66,7 prósenta hlut í fyrirtækinu. Geysir Green kaupir hlut Reykjanesbæjar í HS Orku og á eftir kaupin 66 prósenta hlut. Auk þess kaupir Reykjanesbær landsvæði við Svartsengi á 940 miljónir af HS Orku.

Hitaveitu Suðurnesja var skipt upp í HS Orku og HS Veitu í vetur. HS Orka sér um vinnslu á rafmagni og heitu og köldu vatni. HS Veita sér hins vegar um sölu og dreifingu þess. Dreifingarsvæði HS Veitu er meðal annars Reykjanes, Garðabær, Árborg, Vestmannaeyjar og Hafnarfjörður.

Árni segir að með þessum samningi sé Reykjanesbær að draga sig út úr öllum samkeppnisrekstri auk þess sem hann tryggi að jarðhitaréttindi séu í eigu íbúa.

Grindarvíkurbær hafði áður lýst yfir áhuga á kaupum á landsvæðinu við Svartsengi. Árni segir að hann sé viljugur til samningaviðræðna við bæinn um aðkomu þeirra að svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×