Innlent

Ekki útilokað að hægt verði að bræða saman tillögurnar

Árni Þór Sigurðsson.
Árni Þór Sigurðsson. MYND/GVA

Formaður utanríkismálanefndar útilokar ekki að nefndinni takist að bræða saman tillögur stjórnar og stjórnarandstöðu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Alþingi fær málið aftur til umræðu í fyrsta lagi í næstu viku.

Eftir nánast daglega fundi í röskan mánuð er utanríkismálanefnd langt komin með að afgreiða þingsályktunartillögurnar tvær - frá stjórn og stjórnarandstöðu - um aðildarumsókn. Stjórnarandstaðan gagnrýndi stjórnvöld harðlega fyrir sína tillögu í maílok, sögðu hana illa ígrundaða handabaksvinnu og lögðu fram sína eigin. Nefndin hefur fengið til sín fjölda gesta og skoðað aðildarumsókn frá ýmsum hliðum, og hugsanlega nær nefndin að afgreiða málið að mestu um helgina. Þá kæmist aðildarumsókn til seinni umræðu á alþingi í næstu viku.

Dómsmálaráðherra Svíþjóðar sagði í fréttum Ríkisútvarpsins í vikunni æskilegt að hugsanleg umsókn Íslands bærist sem allra fyrst vilji Íslendingar aðstoð Svía í umsóknarferlinu. Svíar verða í forystu fyrir Evrópusambandið frá fyrsta júlí og út árið. Árni Þór segir alþingi sjálft ráða hraðanum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×