Erlent

Hvíti hvalurinn heimsækir Ástralíu

Óli Tynes skrifar
Migaloo stekkur.
Migaloo stekkur.

Hann heitir Migaloo og er liðlega tvítugur. Eftir því sem best er vitað er hann eini hvíti hnúfubakurinn sem til er í heiminum.

Litaraft hans virðist þó ekki há honum því aðrir hvalir eru ekkert að gera rellu út af því að hann líti öðruvísi út en þeir. Migaloo syndir því með öðrum hvölum. Rasismi virðist ekki til í þeirra samfélagi.

Migaloo hefur verið fastagestur undan austurströnd Ástralíu. Hnúfubakarnir eru nú á norðurleið í hlýrri sjó og búist er við að Migaloo og félagar hans komi að Moreton höfða á morgun.

Hvaðaskoðendur þyrpast jafnan út til að berja hvítingjann augum bæði úr lofti og á sjó.

Hvalaskoðendur verða þó að hlíta ströngum reglum og á sjó má til dæmis ekki fara nær en hálfan kílómetra. Við broti liggja himinháar sektir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×