Innlent

Útfærsla stjórnlagaþings samþykkt í ríkisstjórn

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Topparnir í ríkisstjórninni, þau Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir.
Topparnir í ríkisstjórninni, þau Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir. Mynd/Vilhelm

Ríkisstjórnin samþykkti í vikunni að leggja fyrir Alþingi frumvarp forsætisráðherra um ráðgefandi stjórnlagaþing.

Ráðgert er að þingið komi saman þann 17. júní árið 2010 og starfi í átta mánuði. Kosið verður til þingsins með persónukjöri samhliða sveitarstjórnarkosningum það sama vor. Stuðlað verður að jöfnu hlutfalli kynjanna eins og kostur er.

Stjórnlagaþingið mun þrisvar koma saman; fyrst til að skipa í nefndir og samþykkja verkáætlun þeirra og skipulag, svo til að ræða tillögur nefndanna og að lokum til að samþykkja frumvarp.

Alþingi mun síðan taka tillögur stjórnlagaþingsins til meðferðar.

Ráðgert er að stjórnlagaþing taki sérstaklega til skoðunar efnisatriði sem staðið hafa nær óbreytt allt frá setningu stjórnarskrárinnar 1874 og varða grunnhugtök íslensks stjórnskipulags, þingræðisregluna, þrískiptingu ríkisvaldsins, skipan löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins og tengsl þeirra innbyrðis, sjálfstæði dómstóla og eftirlit þeirra með öðrum handhöfum ríkisvaldsins, ákvæði um kosningar og kjördæmaskipan og þátttöku almennings í lýðræði. Þingið getur þó jafnframt tekið til endurskoðunar hvaðeina annað sem það kýs eða lagt til að bætt verði við stjórnarskrána nýjum ákvæðum eða köflum.

Fjármálaráðuneytið áætlar að kostnaður við stjórnlagaþingið verði um 360 milljónir króna, en í fyrstu var talið að það yrði dýrara.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×