Innlent

Tólf þúsund heimili með mjög þunga greiðslubyrði

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Yfir fimm þúsund íslensk heimili skulda svo mikið að níu af hverjum tíu krónum sem heimilisfólk hefur til ráðstöfunar ættu að fara í afborganir lána. Tólf þúsund heimili eru með mjög þunga greiðslubyrði.

Þetta kom fram á fundi í Seðlabankanum í dag þar sem farið var yfir stöðu íslenskra heimila í kjölfar bankahrunsins. Hagfræðingar Seðlabanka hafa unnið að því að greina skuldastöðuna undanfarna mánuði, þetta er þriðja kynningin og nú eru í fyrsta sinni tekjur heimila komnar inn í dæmið og bílalánin sömuleiðis.

Nú er ljóst að um helmingur heimilanna borga innan við 10% af ráðstöfunartekjum sínum í afborganir af bílum. Ellefu prósent þessara heimila eru hins vegar að borga meira en 30% af ráðstöfunartekjum í afborganir af bílalánum. Miðað er við þolanleg greiðslubyrði heimilis sé innan við fjörutíu prósent. Þessi gögn sýna hins vegar að 22% heimila eru að borga meira en fjörutíu prósent - og að eitt af hverjum sex heimilum þurfa að greiða aðra hvora krónu sem kemur inn í heimilisbókhaldið eftir skatta og lífeyrisgreiðslur - í afborganir af íbúða, bíla og yfirdráttarlánum. Athygli vekur að greiðslubyrðin hjá sjö prósentum heimilanna er yfir níutíu prósent. Það þýðir að um 5200 heimili í landinu - ættu að vera greiða níu af hverjum tíu krónum sem þau hafa til ráðstöfunar í afborganir af lánum, en gera það varla, og um sex þúsund heimili eru með greiðslubyrði upp á 80% af ráðstöfunartekjum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×