Enski boltinn

Wolves styrkti stöðu sína á toppnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sylvan Ebanks-Blake fagnar einu marka Wolves í dag.
Sylvan Ebanks-Blake fagnar einu marka Wolves í dag. Nordic Photos / Getty Images

Wolves er nú með fjögurra stiga forystu á toppi ensku B-deildarinnar eftir að liðið vann 3-1 sigur á Watford í dag. Reading gerði á sama tíma markalaust jafntefli við QPR.

Reading er þó enn í öðru sæti deildarinnar með 58 stig en Birmingham getur jafnað liðið að stigum þar sem liðið leikur nú síðdegis. Reading er þó með mun betra markahlutfall.

Heiðar Helguson var í byrjunarliði QPR og fékk að líta gula spjaldið á 82. mínútu, skömmu áður en hann var tekinn af velli.

Ívar Ingimarsson er enn frá vegna meiðsla en Brynjar Björn Gunnarsson kom inn á sem varamaður í liði Reading á lokamínútu leiksins.

Burnley er nú í áttunda sæti deildarinnar með 46 stig, tveimur á eftir Sheffield United og Preston sem eru í fimmta og sjötta sæti deildarinnar. Burnley vann í dag 2-1 sigur á botnliði Charlton en Jóhannes Karl Guðjónsson kom inn á sem varamaður þegar skammt var til leiksloka en í stöðunni 1-1.

Aron Einar Gunnarsson gat ekki spilað með Coventry sem tapaði 2-1 fyrir Derby í dag þar sem hann tók út leikbann. Coventry er í fjórtánda sæti deildarinnar með 37 stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×