Innlent

Stjórn Samfylkingarinnar fundar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir situr nú á fundi með stjórn Samfylkingarinnar en síðar í dag hittast þau Geir H. Haarde til að ræða um framhald stjórnarsamstarfsins.

Fjörutíu manna fundi formanna aðildarfélaga Samfylkingarinnar og þingmanna lauk um tvöleytið en samkvæmt upplýsingum Stöðvar tvö voru þar mjög skiptar skoðanir um hvort halda ætti áfram samstarfinu við sjálfstæðismenn. Ingibjörg Sólrún fékk þó fullt umboð til að ákveða framhaldið.

Athygli vakti að fjölmiðlum var ekki leyft að mynda fundarmenn og Ingibjörgu Sólrúnu var laumað út bakdyramegin, fjarri linsum myndatökumanna.

Í stjórn Samfylkingarinnar sitja; Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar, Ágúst Ólafur Ágústsson varaformaður Samfylkingarinnar, Helena Þuríður Karlsdóttir ritari, Magnús M. Norðdahl gjaldkeri, Rannveig Guðmundsdóttir formaður framkvæmdastjórnar, Lúðvík Bergvinsson, formaður þingflokks og

Dagur B. Eggertsson formaður sveitarstjórnarráðs.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×