Enski boltinn

Eduardo skoraði tvö í öruggum sigri Arsenal

Elvar Geir Magnússon skrifar
Eduardo fagnar fyrra marki sínu.
Eduardo fagnar fyrra marki sínu.

Eduardo Da Silva skoraði tvö mörk fyrir Arsenal þegar liðið vann Cardiff örugglega 4-0 í 4. umferð ensku FA bikarkeppninnar í kvöld. Þetta var fyrsti leikur Eduardo í byrjunarliðinu síðan hann fótbrotnaði fyrir ári síðan en þá var óttast að ferill hans gæti verið á enda.

Hann skoraði fyrsta mark Arsenal með skalla en það var síðan Nicklas Bendtner sem bætti við öðru markinu. Eduardo skoraði síðan aftur en í þetta sinn úr vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur. Undir lokin rak Robin van Persie síðasta naglann í kistu Cardiff.

Eduardo fagnaði seinna marki sínu með því að hlaupa til Tony Colbert, þrekþjálfara Arsenal, og gefa honum faðmlag. Colbert sá um Eduardo í endurhæfingu hans eftir meiðslin.

Þetta var endurtekinn leikur þar sem liðin skildu jöfn í fyrri leiknum í Wales. Það er ljóst að Arsenal mætir Jóhannesi Karli Guðjónssyni og félögum í Burnley í fimmtu umferðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×