Innlent

Braut og bramlaði fornminjar á Bessastöðum

Handtekinn Ekki er vitað hvað manninum gekk til. Hann streittist á móti við handtöku.Fréttablaðið/daníel
Handtekinn Ekki er vitað hvað manninum gekk til. Hann streittist á móti við handtöku.Fréttablaðið/daníel

Lögreglumenn yfirbuguðu og handtóku mann í annarlegu ástandi við Bessastaðakirkju í gær. Maðurinn hafði gengið berserksgang í kirkjunni, brotið glugga og eyðilagt kirkjumuni.

Ekki liggur fyrir hvað manninum gekk til, en talið er að hann hrjái andleg veikindi. Messu var nýlokið í kirkjunni þegar hann bar að garði. Enginn var í kirkjunni þegar hann fór inn.

Að sögn Örnólfs Thorssonar forsetaritara braut maðurinn nokkrar rúður í fjórum steindum gluggum eftir listamennina Finn Jónsson og Guðmund Einars­son. Þá skemmdi hann margra alda gamla kertastjaka. Vonast er til þess að hægt sé að laga munina.

Maðurinn var færður í fangageymslur og er búist við að hann verði yfirheyrður í dag.

Umfang tjónsins liggur ekki fyrir. Tæknideild lögreglunnar var að störfum þar í gær og til stendur að leggja nánara mat á tjónið í dag.

Bessastaðakirkja hefur staðið í núverandi mynd frá árinu 1796 og er hún meðal elstu steinbygginga á Íslandi. Sumir munirnir í kirkjunni eru töluvert eldri. Talið er að kirkja hafi staðið á Bessastöðum í um eitt þúsund ár. - sh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×