Innlent

1700 manns lentu í frestun atvinnubótagreiðslu

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar.
Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar. Mynd/Valli

Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir allt að sautjánhundruð manns hafa lent í frestun atvinnubótagreiðslu um síðustu mánaðamót.

Vinnumálastofnun keyrði saman upplýsingar sínar við staðgreiðsluskrár Ríkisskattstjóra frá marsmánuði til að koma upp um óútskýrðar tekjur. Greiðslur til þeirra sem reyndust ekki hafa tilkynnt um tekjur sínar á tímabilinu voru frystar tímabundið.

Mikið af tekjunum sem komu í ljós eru ekki frádráttarbærar atvinnuleysisbótum, til dæmis lífeyrissjóðsgreiðslur, orlofsuppbót og meðlag. Þó var nokkuð um launatekjur sem ekki höfðu verið taldar fram.

Gissur segir að frestun greiðslunnar hafi numið tveimur til þremur dögum í flestum tilfellum, þó allt að hundrað til tvöhundruð manns hafi þurft að bíða til sjötta júlí eftir greiðslunni.

Hann bendir á að þeim sem þiggja atvinnuleysisbætur beri að tilkynna allar tekjur sínar með því að útfylla eyðublað um tekjuáætlun - líka þær sem ekki eru frádráttarbærar.

„Í næstu samkeyrslu munum við þó reyna að sortera þessar greiðslur frá," segir Gissur að lokum.












Tengdar fréttir

Fékk sjokk þegar bæturnar skiluðu sér ekki

„Að stöðva svona greiðslu án neins fyrirvara er náttúrulega fáránlegt. Þú getur ímyndað þér sjokkið sem maður fær," segir Linda Magnúsdóttir, einstæð fjögurra barna móðir sem þiggur atvinnuleysisbætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×