Innlent

Keyrði dópaður en sleppur við blóðsýnareikning

Maður á þrítugsaldri var dæmdur til þess að greiða hálfa milljón í sekt fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna og ofsaaksturs. Að auki var hann með ólöglegan hníf undir höndum og gerðist þar með brotlegur við vopnalög.

Maðurinn ók á 175 kílómetra hraða á Miðnesheiðinni í apríl síðastliðnum. Daginn eftir endurtók hann leikinn en nú keyrði hann ögn hægar eða á 146 kílómetra hraða. Á báðum stöðum var leyfilegur hámarkshraði 90 kílómetrar á klukkustund.

Í fyrra skiptið sem hann ók of hratt fannst hnífurinn við leit í bílnum.

Tekið var blóðsýni úr manninum sem sýndi að hann var undir áhrifum kannabisefna og amfetamíns þegar hann ók bílnum. Maðurinn sleppur þó við að greiða reikning upp á 23 þúsund krónur vegna blóðsýnatöku en í dómsorði segir:

Inn á þann reikning eru handritaðar fjárhæðir og lögreglunúmer. Er krafan vanreifuð að þessu leyti og ekki studd nægjanlegum gögnum.

Engu að síður þarf hann að greiða fimm hundruð þúsund krónur auk þess sem hann er sviptur ökuleyfi í níu mánuði. Þá þarf hann að greiða sakakostnað upp á 130 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×