Innlent

Skattatillögurnar kynntar í dag

Þingflokkar stjórnarflokkanna komu saman til aukafundar í morgun til að fara yfir skattatillögur ríkisstjórnarinnar, sem verða kynntar klukkan þrjú í dag í Þjóðminjasafninu.

Nú er rétt að ljúka þingflokksfundum stjórnarflokkanna þar sem oddvitar þeirra kynntu þingmönnum skattatillögur ríkisstjórnar. Þar er gert ráð fyrir þriggja þrepa skatti í tekjuskattskerfinu og nýju 14 prósenta þrepi verður væntanlega bætt inn í viriðisaukaskattskerfið.

Ríkisstjórnin þarf samkvæmt fjárlagafrumvarpi að afla nýrra tekna upp á rúma 50 milljarða á næsta ári og draga þarf úr útgjöldum upp á tuttugu til þrjátíu milljarða. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra munu kynna skattatillögur ríkisstjórnarinnar í heild sinni á fréttamannafundi klukkan þrjú í dag. Þó munu einstök frumvörp vegna aðgerða í skattamálum ekki liggja fyrir í dag.

Verulegur samdráttur hefur orðið í ýmsum tekjustofnum ríkisins vegna efnahagskreppunnar. Heimildir fréttastofunnar herma að ýmsir tekjustofnar verði hækkaðir einungis til að ríkið haldi sömu tekjum og áður en aðrir hækka til að ná fram viðbótartekjum. Þrátt fyrir þetta verði skattheimta sem hlutfall af landsframleiðslu með því lægsta sem verið hafi á Íslandi. En þá ber að hafa í huga að landsframleiðsla hefur dregist verulega saman.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×