Innlent

Meinað að fylgjast með löndun ESB-skipa á karfa af Reykjaneshrygg

Ítrekaðar óskir Íslendinga um að fá að fylgjast með löndunum skipa Evrópusambandsins á karfa af Reykjaneshrygg hafa ekki náð fram að ganga og segjast íslensk stjórnvöld afar ósátt við að hafa þurft að samþykkja óbreytta stjórnun veiðanna á ársfundi Norðaustur Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar í London fyrir helgi.

Í frétt frá sjávarútvegsráðuneytinu um ársfundinn kemur fram að í ljósi mikilla veiða rússneskra skipa á Reykjaneshrygg, utan 200 mílnanna, hafi verið lögð áhersla á að ná fram málamiðlun fyrir árið 2010 til að koma í veg fyrir stjórnlausar veiðar á svæðinu á næstu vertíð. Samþykktar hafi verið reglur til að bæta bæði eftirlit með veiðunum og löndun afla en misbrestur hafi verið á að aflaskýrslur, einkum frá aðildarríkjum Evrópusambandsins, skiluðu sér.

Þá hafi íslenskum eftirlitsmönnum ekki verið heimilað að fylgjast með löndunum karfa skipa Evrópusambandsins þótt ítrekað hafi verið eftir því leitað síðastliðið sumar. Segir ráðuneytið að nú þegar sé veitt langt umfram ráðgjöf og því mikilvægt að hægt sé að fylgjast með afla skipa allra aðildarríkja. Samningurinn hafi verið samþykktur af öllum aðildarríkjum utan Evrópusambandsins.

Segir sjávarútvegsráðuneytið að íslensk stjórnvöld séu langt frá því að vera sátt við að þurfa að samþykkja óbreytta stjórnun enda telja þau að fylgja beri vísindalegri ráðgjöf.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×