Innlent

Smíði Hvítárbrúar við Flúðir komin á fullt skrið

Fyrstu undirstöður nýrrar Hvítárbrúar við Flúðir í Árnessýslu voru reknar niður í árfarveginn í dag. Verktakinn segir það guðsgjöf að hafa hreppt verkið og oddviti Bláskógabyggðar segir brúna verða mikilvæga þvertengingu fyrir uppsveitir Suðurlands.

Tuttugu manna vinnuflokkur Ræktunarsambands Flóa og Skeiða hóf verkið fyrir mánuði með því að leggja veg að brúarstæðinu en Hvítá verður brúuð milli Reykholts og Flúða. Í morgun hófst svo sjálf brúarsmíðin þegar starfsmenn Vegagerðarinnar byrjuðu með sérstökum fallhamri að reka niður staura sem brúarstöplarnir munu hvíla á. Eftir helgi byrja svo smiðir frá Já-verki að slá upp fyrir stöplunum.

Kjartan Þorvarðarson, verkstjóri hjá Ræktunarsambandinu, segir að nú þegar kreppa sé í landinu sé allir himinlifandi að hafa fengið þetta verkefni. Búið sé að vera magurt í vetur og það hafi verið guðsgjöf að fá þetta.

Á eyri sem rutt var út í ána er búið að skapa aðstöðu fyrir brúarsmíðina en brúin verður byggð í tveimur áföngum. Þegar fyrri áfanginn verður tilbúinn verður ánni veitt undir hann og tekið til við að smíða seinni áfanginn, einnig á þurru.

Brúin sjálf verður 270 metra löng og sú áttunda lengsta á landinu. Leggja þarf samtals um átta kílómetra langa vegi að brúnni sem áætlað er að verði opnuð umferð eftir aðeins fjórtán mánuði. Við það styttist leiðin milli Reykholts og Flúða um 26 kílómetra.

Beggja vegna ár bíða menn með tilhlökkun eftir brúnni. Oddviti Bláskógabyggðar, Margeir Ingólfsson, segir að hún muni styrkja samfélögin á svæðinu og auka samstarf og samvinnu. Kveðst hann viss um að ef brúin væri komin, eins og stefnt hafi verið að fyrir margt löngu, væri þetta eitt og sama sveitarfélag, sitt hvoru megin árinnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×