Innlent

Laxveiðar í boði Orkuveitunnar hugsanlega endurskoðaðar

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Guðlaugur Gylfi Sverrisson, stjórnarformaður Orkuveitunnar,
Guðlaugur Gylfi Sverrisson, stjórnarformaður Orkuveitunnar, Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Stjórnarformaður Orkuveitunnar segir sjálfsagt að skoða hvort að laxveiði í boði fyrirtækisins í Elliðaánum eigi rétt á sér. Sjálfur hafi hann ekki þegið slíkt boð enn sem komið er.

Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi VG og stjórnarmaður í Orkuveitunni, lagði fyrir helgi fyrirspurn í stjórn fyrirtækisins um laxveiðarnar. Í samtali við fréttastofu í gær gagnrýndi Þorleifur boðsferðirnar og sagði þær tímaskekkju þegar á sama tíma væri farið í grimmar sparnaðaraðgerðir.

Dagurinn kostar allt að 16 þúsund

Í fyrrasumar bauð Orkuveitan borgarfulltrúum, fyrrum borgarstjórum og viðskiptavinum, fulltrúum eigenda og stjórnendum fyrirtækisins í veiði í Elliðaárnar í samanlagt átta daga. Boðsgestum stóð oftar en ekki til boða leiðsögn reyndra veiðimanna og ósjaldan var boðið upp á veitingar í tengslum við ferðirnar.

Verð fyrir eina stöng í sumar er óbreytt frá síðasta ári og kostar dagurinn á bilinu 11.760 til 16.080 krónur. Veiðileyfi kostar fimmtung minna fyrir félagsmenn Stangveiðifélags Reykjavíkur.

Gamlar hefðir

Guðlaugur Gylfi Sverrisson, stjórnarformaður Orkuveitunnar, segir boðsferðirnar skýrast af gömlum venjum og hefðum milli leigutaka og leigusala. Í áraraðir hafi borgarstjóra og stjórnarformanni Orkuveitunnar verið boðið í veiði ánum.

Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Elliðaárnar hafa verið í eigu borgarinnar í meira en öld. Lungað af þeim tíma hefur Stangaveiðifélag Reykjavíkur selt veiðileyfi í árnar.

Sitjandi borgarstjóri opnar Elliðaárnar árlega í boði stangveiðifélagsins. Þá er einnig hefð fyrir því að öllum borgarfulltrúum standi til boða að veiða í ánum í boði Orkuveitunnar en þeir fá þó misjafnlega mörg boð. Það ræðst meðal annars af því hvort þeir eigi sæti í borgarráði eða stjórn Orkuveitunnar.

Sjálfsagt að skoða málið

„Mín afstaða er sú að þetta hefur viðgengist í mörg ár. Það er komin ákveðin hefð fyrir þessu en það getur vel verið að sú hefð sé röng," segir stjórnarformaðurinn.

Guðlaugur segir ekkert athugavert við fyrirspurn Þorleifs. Henni verði svarað og sjálfsagt væri að skoða málið.


Tengdar fréttir

Orkuveitan býður völdum í lax þrátt fyrir niðurskurð

Orkuveita Reykjavíkur býður kjörnum fulltrúum og völdum starfsmönnum Orkuveitunnar í laxveiði í Elliðará á besta tíma í sumar. Borgarfulltrúi Vinstri grænna, Þorleifur Gunnlaugsson, sat sinn fyrsta fund hjá stjórn Orkuveitunnar á föstudaginn og lagði fram fyrirspurnir um hversu marga daga Orkuveitan hefði tekið frá, hverjum er boðið og svo hver kostnaðurinn sé af boðsferðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×