Innlent

Kaupsamningum fækkaði fimmfalt

hlíðarnar Veltan á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu janúar til júlí í ár er rúmlega helmingi minni en á sama tíma í fyrra.
fréttablaðið/pjetur
hlíðarnar Veltan á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu janúar til júlí í ár er rúmlega helmingi minni en á sama tíma í fyrra. fréttablaðið/pjetur

Fimmfalt færri kaupsamningum fasteigna var þinglýst á höfuðborgarsvæðinu fyrstu sjö mánuði ársins miðað við sama tíma árið 2007, samkvæmt upplýsingum frá Fasteignaskrá ríkisins. Kaupsamningum hefur fækkað um ríflega helming samanborið við tímabilið janúar til júlí á síðasta ári.

Alls var 1.029 kaupsamningum þinglýst á fyrstu sjö mánuðum þessa árs. Sé litið á sambærilegar tölur fyrir árið 2004 kemur í ljós að það ár var tæplega fimm sinnum fleiri samningum þinglýst en í ár.

Þegar fjöldi samninga í júlí 2009 er borinn saman við júní 2009 fjölgar kaupsamningum um 9,6 prósent. Samanborið við júlí í fyrra fækkar hins vegar kaupsamningum um 49,7 prósent.

Veltan á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu janúar til júlí í ár er rúmlega helmingi minni en á sama tíma í fyrra og og tæpur fimmtungur af því sem var fyrstu sjö mánuði ársins 2007. Velta hefur ekki verið minni á þessum tíma árs svo langt sem gögn Fasteignaskrárinnar ná.

Í Hagsjá Landsbankans kemur fram að fasteignaverð hafi nú þegar lækkað um þrettán prósent að nafnvirði frá því það náði hámarki í janúar 2008. Lækkun fasteignaverðs hafi svo aftur áhrif á mælingu á vísitölu neysluverðs, þar sem húsnæðisliðurinn vegi nokkuð þungt. Lækkunin hafi þannig haldið aftur af verðbólgu síðustu mánuði eftir að hafa knúið hana áfram þegar fasteignaverð hækkaði hratt í uppsveiflunni sem átti sér stað á fasteignamarkaði á árunum 2004 til 2007.

kjartan@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×