Lífið

Sveitapiltsins draumur á dagskrá fyrir páska

Mynd Egils Eðvarðssonar um rómaða pílagrímsför Hljóma og aðdáenda þeirra er nú á lokastigi.fréttablaðið/jakob
Mynd Egils Eðvarðssonar um rómaða pílagrímsför Hljóma og aðdáenda þeirra er nú á lokastigi.fréttablaðið/jakob
„Myndin er á lokastigi og verður sýnd á laugardagskvöld fyrir páska," segir Egill Eðvarðsson en mynd hans um sögufræga pílagrímsför FTT og Hljóma til Liverpool er komin á dagskrá Ríkissjónvarpsins.

Um hundrað manna hópur fór sérstaka afmælisför til Liverpool síðasta sumar á Bítlaslóðir. Meðal annars var farið á tónleika Pauls McCartney og fylgst með því þegar Hljómar stigu á svið í hinum sögufræga Cavern-klúbbi - 44 árum eftir að þeir tóku þar frægt „gigg". Skipuð nákvæmlega þeim sem komu þar fram fyrir 44 árum: Gunnari, Rúnari Júlíussyni, Eggerti Kristinssyni og Erlingi Björnssyni. Það gigg markar í raun upphaf gríðarlegra vinsælda Hljóma á Íslandi.

Myndin heitir Sveitapiltsins draumur og er tileinkuð minningu Rúnars Júlíussonar sem Egill segir sér ljúft og skylt. „Þetta snertir marga fallega strengi í brjóstum. Ferðin, upplifunin og svo Rúnars þáttur í þessu. Hann fer þarna sína hinstu för og allir fylgja honum. En menn voru ánægðir með þennan hóp sem fylgdi Hljómum. Ferðin hófst í Keflavík og endar þar."

Elsa María Jakobsdóttir er umsjónarmaður en tökumaður er Jón Páll Pálsson. Rætt er við ferðalanga en meginefnið eru viðtöl við Hljómana sem rifja upp fyrstu árin. Og hver sér þetta sínum augum. „Eins og Gunni segir svo ágætlega þá eru til fjórar ólíkar útgáfur á hvernig Hljómar urðu til. Elli segir eitt og Rúnar annað, Eggert með þriðju versjónina og Gunni ypptir öxlum og segir: það eru margar útgáfur af þessu," segir Egill.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.