Lífið

Þrjátíu umsóknir liggja fyrir

Þorsteinn er í óða önn að undirbúa Iceland Airwaves-hátíðina sem verður haldin í haust.
Þorsteinn er í óða önn að undirbúa Iceland Airwaves-hátíðina sem verður haldin í haust.

Undirbúningur er í fullum gangi fyrir næstu Airwaves-hátíð sem verður haldin í haust eins og undanfarin ár. Að sögn Þorsteins Stephensen hjá Hr. Örlygi eru þrjátíu umsóknir komnar frá ýmsum hljómsveitum um að spila á hátíðinni. „Við ætlum að sjá hvað kemur best út. Við erum með mörg spennandi mál á borðinu," segir hann.

Breska tónlistarbiblían Music Week sagði nýverið að enn ætti eftir að borga tveimur breskum hljómsveitum fyrir síðustu hátíð og að Hr. Örlygur hefði óhreint mjöl í pokahorninu.

Þorsteinn játar að enn eigi eftir að borga þremur til fjórum aðilum sem tóku þátt í hátíðinni síðasta haust. Telur hann að heildargreiðslan nemi 3-400 þúsund krónum. Spurður hvort orðspor hátíðarinnar hafi ekki beðið hnekki erlendis segir Þorsteinn svo ekki vera. „Orðspor hátíðarinnar hefur ekkert skaðast. Þegar við tölum við okkar umboðsmenn og skrifstofur er það mjög augljóst að það líta allir á Airwaves sem eina bestu tónlistarhátíð í heiminum.

Það urðu tafir á greiðslum út af þessu bankahruni og það voru einn eða tveir sem tóku því eins og það væri verið að svíkja þá. En þetta eru bara sömu afleiðingar og önnur íslensk fyrir­tæki hafa þurft að ganga í gegnum," segir hann. „Auðvitað hafa menn haft áhyggjur þegar það er verið að bóka bönd. Menn úti hafa minni tiltrú á að það sé hægt að láta hlutina ganga á Íslandi. Við finnum fyrir því eins og aðrir." - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.